Gunnar Sturla

What if money were no object?

Gunnar - Óflokkað rusl

23. March, 2014 - 14:31:55

Ég rakst á þessa myndasögu á Facebook í dag.

zen pencils: Alan Watts: What if money were no object

Ég er ósammála þessu af tveimur ástæðum, en önnur er ekki endilega óbreytanleg.

Ég held að það sé efnahagskerfið, en ekki menntakerfið sem elur upp í okkur það að við getum ekki lifað við að gera það sem “okkur dreymir um að gera”, vegna þess að staðreindin er sú að við getum það ekki öll. Það eru ákveðnir hlutir sem of margir vilja gera án þess að það sé eftirspurn eftir því. Það eru til dæmis roslega margir sem virðast hafa áhuga á að rannsaka sálarlíf mannsskeppnunnar þannig að núna eru allt of margir sem ákveða að læra sálfræði. Það margir að fólk eyðir mörgum árum í að læra eitthvað og sérhæfa sig í einhverju sem það á mjög erfitt með að hagnýta (eða nýta sér til að lifa af, sem er praktískari leið til að horfa á hlutina). Það sama má segja um margar listir, td. kvikmyndun, kveðskap osfrv.. Þeir sem þrauka og ná að lifa af listum þurfa oft að færa miklar fórnir til þess. Ef við ætlum að kenna menntakerfinu um að letja fólk til að elta sína drauma, þá ætti það að vera vegna þess að það bendir fólki á þessa staðreynd. Mér finnst það eigi að vera eitt hlutverk skólakerfisins að sýna okkur þennan raunveruleika, því við þurfum að taka hann inn í okkar val.

Miðað við þetta efnahagskerfi sem við búum við þá finnst mér að boðskapurinn eigi ekki að vera “farðu og eltu villtustu draumana þína”, heldur “farðu og eltu draumana þína sem eru raunsægir”. Mér finnst ólíklegt að þorri fólks eigi sér bara einn hinsta draum um það sem það langar til að gera í lífinu. Ég gæti til dæmis séð sjálfan mig hamingjusaman í rosalega mörgum störfum, en líklega yrði ég hamingjusamari í starfi sem veitir mér fjárhagslegt og félagslegt öryggi frekar en það sem uppfyllir endilega mína villtustu drauma. Ég vel því eitthvað sem er málamiðlun af mínum draumum og efnagaslega veruleikanum sem við búum í. Auðvitað er líka fólk sem getur ekki hugsað sér að gera neitt annað en draumastarfið, en það er líka allt í lagi. Þá samþykkir það fórnirnar sem það þarf að færa og leggur (vonandi) harðar af sér og verður frábært í því, eða gerir málamiðlun sem það er sátt við (eða ekki).

Efnahagskerfið okkar er samt ekki endilega fast í stein. Það er sett saman af mönnum, og gæti vel verið breytt af mönnum. Við búum á spennandi breytingartímum og störf sem eru til í dag verða ekki endilega til á morgun. Rosalega mikið af þeim störfum sem við vinnum í dag gætu vélmenni/tölvur hæglega gert eftir ekki svo mörg ár. Td. akstur bíla, stýring flugvéla, matreisla, veitingaþjónusta, verslun og svona mætti lengi telja. Ef við sem samfélag tækjum þá ákvörðun að ávöxtur þessara framfara ætti að fara til borgaranna, en ekki núverandi eigenda peninganna, þá gætum við notað virðið sem vélarnar skapa til þess að borga fólki föst lágmarkslaun. Fólk þyrfti þá ekki að vinna frekar en það vildi og gæti gert það sem það vill, til dæmis unnið að kveðskap eða lifað útivið og stundað hestamennsku.

Þetta er ekki óraunhæf hugmynd, en við verðum að taka afstöðu til hennar fyrr en síðar, ef hún á að verða að veruleika.

Svara


Copyright © 2004 - 2018 Gunnar Sturla Ágústuson - Proudly powered by WordPress - Rétt XHTML og CSS