Gunnar Sturla

Færslusafn fyrir flokkinn 'meta'Skrifhamur

Gunnar - Daglegt líf, meta, Netið - Engin svör »

19. March, 2014 - 00:25:51

Rétt í þessu datt ég í það að lesa gamlar bloggfærslur hjá mér, sem er skemmtilegra en ég bjóst við. Ekki það að þetta séu einhver frábær skrif, heldur er þetta einhvers konar utanaðkomandi tenging inn í heilann á mér eins og hann var. Ég býst við að þetta sé alls ekkert nýtt fyrir marga, þetta er örugglega sama tilfinning og margir fá þegar þeir lesa gömul dagbókarskrif eða lesa gömul bréf.

En jæja. Það var gaman að renna yfir þetta, gamalt nöldur um léleg blogg var sérstaklega skemmtilegt því halló, hver bloggar lengur? Sem er reyndar áhugaverður punktur perónuleg blogg eru alveg horfin, og það þykir núna fullkomlega eðlilegt að kvarta á netinu undan magaverk af indverka pottréttinum sem fólk var að borða. Já, menningin um það sem má segja hefur breyst, og líka hvar það er sagt. Í dag fer allt fram á Facebook, og persónulegu bloggin verða í minningunni eins og vandræðalegt unglingstímabil internetsins en kannski bara vegna þess að ég var vandræðalegur unglingur á þeim tíma.

Auðvitað eru ennþá til blogg, en þau íslensku eru flestöll pólitísk, tísku eða matarblogg, sem sagt frekar eins og ritstýrt tímarit um eitthvað ákveðið, frekar en handahófskenndar hugsanir pennans. Sem var miklu minna fyrirsjáanlegt, en auðvitað meira happa-glappa.

Bloggin virkuðu alltaf svo tilgangslaus, þetta var rosa basic leið fyrir einstaklinga að tjá sig. Ef maður var með einhvern metnað í skrifunum gat tekið mjög langan tíma að koma hugsuninni frá sér, og oftast (sérstklega í mínu tilfelli) fékk maður sáralítið til baka eftir alla þessa erfiðisvinnu. En þrátt fyrir allt þetta tilgangsleysi, sem var það sem leiddi til falls „bloggheima“, þá hvílir hjá mér einhver nostalgíurómantík yfir þessum tíma. Hver sem er skrifaði um hvað sem er af mkilum eldmóði í von um að sem flestir læsu skrifin og yrðu fyrir áhrifum af þeim. Þetta var oftast lengri og heilsteyptari hugsun en tíðkast í dag og gaf kannski dýpri innsýn inn í smærri afkima huga bloggarans en þessi dreifðari ein-lína-fjórum-sinnum-á-dag stemming sem er á Facebook.

Ég datt sumsé í skrifham við þennan lestur, en ég ætla ekki að hafa þetta sem ég-er-byrjaður-að-blogga-aftur blogg, heldur frekar mér-fannst-gaman-að-hafa-bloggað-og-kannski-geri-ég-það-aftur blogg.Copyright © 2004 - 2018 Gunnar Sturla Ágústuson - Proudly powered by WordPress - Rétt XHTML og CSS